14.07.2017

Áhrif vaktavinnu

Vaktavinna hefur lengi tíðkast en það er ekki fyrr en nokkuð nýlega sem farið var að gefa áhrifum hennar á heilsu almennilega gaum. Í nútíma þjóðfélagi er u.þ.b. fimmti hver vinnufær maður starfandi samkvæmt einhverskonar vaktakerfi. Eins og önnur spendýr stjórnast maðurinn að miklu leytu af eðlislægri dægursveiflu, eins og að vaka á daginn og sofa á nóttunni. Framleiðsla meltingarensíma er í lágmarki á nóttunni og líkamshiti fylgir ákveðnum sólarhringssveiflum. Dægursveifla okkar stjórnast að miklu leyti af reglubundnum birtubreytingum sem hafa áhrif á hormónaframleiðsluna. Líkamsstarfssemin er því í hámarki á ákveðnum tíma sólarhringsins og í lágmarki á öðrum. Vaktavinna gengur þvert á þetta og getur því haft slæm heilsufarsleg áhrif.

Þreyta er algengur fylgifiskur vaktavinnu og finnur fólk yfirleitt mest fyrir henni á seinni hluta næturvaktar og í byrjun morgunvaktar, en þá er eðlileg líkamsstarfssemi í lágmarki. Árvekni og viðbragðsflýtir er á þessum tímum minni en ella. Stutt hvíld getur þó bætt þetta til muna og því getur verið gott að ná stuttum dúr á næturvaktinni ef eðli vinnunnar leyfir. Forðast ætti að vinna lengri vaktir en 10-12 klst. Rannsóknir sýna einnig að æskilegra sé að vaktaskipti fylgi klukkunni, þ.e. að kvöldvaktir komi á eftir dagvöktum og næturvaktir taki við af kvöldvöktum. Einnig er mælt með því að vaktirnar skiptist nokkuð hratt, þ.e. á nokkurra daga fresti, og að næturvöktum sé haldið í lágmarki til að hafa sem minnst áhrif á dægursveifluna. Góð birtuskilyrði á næturvöktum geta verið hjálpleg.

Meltingarvandamál eru tiltölulega algeng hjá vaktavinnufólki, s.s. brjóstsviði, kviðverkir, uppþemba o.fl. sem skýrist m.a. af því að seyti meltingarensíma er í lágmarki á nóttunni. Forðast ætti að leggja sér til munns mjög fituríkan eða brasaðan mat á þeirri stundu. Gott aðgengi að góðum og hollum mat er æskilegt og ef vinnustaðurinn sér ekki um að sjá starfsmönnum fyrir slíku er mælt með að útbúa sér gott nesti til að taka með sér í vinnuna.

Að aðlaga einkalífið að vaktavinnu getur verið snúið, sérstaklega ef vaktavinnan er óregluleg og ófyrirsjáanleg. Fólk missir af samverustundum með fjölskyldunni og öðrum félagslegum uppákomum. Fjölskylda vaktavinnumannsins þarf einnig að venjast því að taka tillit til óhefðbundinna svefntíma og vinnutíma. Gott ráð er að stefna alltaf að því að borða eina máltíð á dag með fjölskyldunni og skipuleggja frítímann vel.

Fólk í vaktavinnu er í meiri hættu með að þróa með sér streitu og þunglyndi. Persónuleg einkenni skipta þó líka máli; sumir þola vaktavinnu mjög vel, á meðan aðrir eru mun viðkvæmari. Það er mikill kostur ef vaktavinnufólk hefur möguleika á að skipuleggja vaktirnar sjálft að öllu eða einhverju leyti. Að vera í góðu líkamlegu ástandi er ávallt til bóta. Með hækkandi aldri þolir fólk yfirleitt vaktavinnu verr og gæti komið sá tími að fólk þurfi að breyta vinnufyrirkomulagi. Ófrískar konur ættu sérstaklega að forðast að vinna næturvaktir vegna neikvæðra áhrifa á meðgöngu og fósturþroska.

Lilja Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur.

Prentvæn útgáfa (PDF)