14.01.2017

Árleg inflúensa

Inflúensa er bráð veirusýking sem orsakast af inflúensuveirum A og B og veldur faraldri nánast á hverjum vetri. Hlutfall þeirra sem smitast og veikjast í faraldri er 10-40% og vara faraldrar gjarnan í 5-10 vikur. Inflúensa A er algengari en inflúensa B, en báðar tegundir geta greinst í faraldri.

Nokkuð er farið að bera á inflúensu á meginlandi Evrópu og virðist hún því nokkuð fyrr á ferðinni en síðastliðin ár.

Inflúensa A(H3) var staðfest hjá 12 einstaklingum í september síðastliðnum, en þá náði hún ekki útbreiðslu og fleiri greindust ekki fyrr en í byrjun desember. Inflúensan fer því sennilega hægt af stað, því væg aukning er í fjölda þeirra sem greinast með inflúensulík einkenni á heilsugæslunni. Samkvæmt þessu má gera ráð fyrir vaxandi útbreiðslu árlegrar inflúensu uppúr áramótum.

Einkenni

Dæmigerð inflúensa byrjar oft skyndilega eftir eins til tveggja daga meðgöngutíma.

Í upphafi ríkja einkenni eins og hiti, hrollur, höfuðverkur, vöðvaverkir og slappleiki. Slæmir verkir í augnvöðvum geta komið þegar horft er til hliðanna. Almenn einkenni og hiti vara oftast í þrjá daga. Öndunarfæraeinkenni eins og hósti, hálsóþægindi, nefstífla og nefrennsli eru oftast til staðar í upphafi veikinda en eru þá í skugga almennu einkennanna. Þau verða hins vegar meira áberandi þegar frá líður.

Lungnabólga í kjölfar inflúensu er algengari hjá eldra fólki, en aðrir fylgikvillar eru til dæmis berkju- og kinnholubólga.

Læknar geta greint inflúensu með nokkurri nákvæmni með því að skoða sjúklinginn og meta sjúkrasögu hans. Unnt er að staðfesta greininguna með töku sýna úr öndunarvegi og/eða blóði frá sjúklingi.

Smitleiðir

Einstaklingur með inflúensu getur smitað í sólarhring áður en einkenna verður vart, en er mest smitandi við upphaf einkenna og getur dreift smiti í allt að 3–5 daga eftir að veikindi hefjast. Helstu smitleiðir inflúensuveirunnar eru tvær, með höndum og með lofti sem dropa- eða úðasmit.

Meðferð í veikindunum

Mikilvægt er að fá næga hvíld, drekka vel af vökva, taka verkjalyf og hitalækkandi lyf eftir þörfum.

Með kveðju, Þóra Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur

Prentvæn útgáfa (PDF)