07.06.2016

Legslímuflakk - Einkenni og áhrif

Legslímuflakk er góðkynja kvensjúkdómur sem hefur víðtæk áhrif á líf kvenna. Þekkingaleysi á einkennum sjúkdómsins getur valdið töf á greiningu og þar með dregið úr lífsgæðum og haft áhrif á frjósemi. Við hjá Vinnuvernd ehf viljum auka þekkingu almennings á einkennum legslímuflakks í þeirri von að fleiri konur fái greiningu á sínum einkennum áður en skaði verður á kvenlíffærum.

Hvað er legslímuflakk?
Legslímuflakk verður þegar frumur úr leginu taka sér bólfestu annarsstaðar í líkamanum, oftast í kviðarholinu. Þar viðhalda þeir sinni eðlilegu starfsemi með mánaðarlegum blæðingum líkt og ef væru þær enn í leginu. Þetta getur valdið miklum verkjaköstum og ef ekkert er að gert myndast örvefur sem getur haft áhrif á starfsemi æxlunarfæranna. Talið er að allt að 10% kvenna sé með legslímuflakk.

Áhrifaþættir
Svo virðist sem legslímuflakk erfist að einhverju leiti og því meiri líkur á að stúlkur fái legslímuflakk hafi móðir þeirra eða systir átt í erfiðleikum með mikla tíðarverki eða önnur einkenni. Matarræði getur haft áhrif á þróun sjúkdómsins og dregið úr eða aukið áhrif hans. Þannig virðist hveiti, rautt kjöt, koffín, mjólkurvörur og mettuð fita, svo eitthvað sé nefnt, haft neikvæð áhrif á einkenni og þróun á meðan að omega 3 fitusýrur, trefjar, grænmeti og ávextir hafa jákvæð áhrif.

Félagsleg áhrif
Fylgikvillar legslímuflakks geta haft áhrif á heilsutengd lífsgæði kvenna og hamlað þátttöku þeirra í samfélaginu. Tilfinningar á borð við þunglyndi, kvíða og óvissu geta valdið úrræðaleysi, dregið úr getu þeirra til að hafa stjórn á aðstæðum og afla sér bjargráða. Einkenni legslímuflakks geta dregið úr getu kvenna til þess að stunda nám eða atvinnu sökum mikilla verkja. Það er því mikilvægt að greining á ástandi þessa kvenna liggi fyrir, ekki bara fyrir þær sjálfar heldur einnig svo atvinnurekendur geti sýnt tilskyldan stuðning og skilning.

Með kveðju, Bryndís Rut Logadóttir hjúkrunarfræðingur

Prentvæn útgáfa (pdf)