14.06.2017

Frjókornaofnæmi

Orsakir frjókornaofnæmis

Orsökin fyrir því að sumir mynda ofnæmi fyrir frjókornum er í flestum tilvikum óþekkt. Tilhneiging til þess að mynda ofnæmi er þó að einhverju leyti ættgeng og hefur farið vaxandi á Vesturlöndum á síðustu áratugum. Ýmsar kenningar eru þar á lofti, svo sem aukið hreinlæti og jafnvel “skortur” á viðfangsefnum fyrir ónæmiskerfið þar sem tekist hefur að útrýma mörgum alvarlegum sýkingum. Jurtir þurfa eins og aðrar lífverur að fjölga sér og skiptast á erfðaefni og sumar þeirra grípa til þess ráðs að senda erfðaefnið loftleiðina. Sumar jurtir geta á ákveðnum tímum árs myndað mikið magn frjókorna sem berast víða og ná töluverðri þéttni í lofti. Þau berast því óhjákvæmilega í vit manna og geta þar vakið viðbrögð ónæmiskerfisins. Þá fer ónæmiskerfi manna að mynda mótefni gegn frjókornunum. Mótefni þessi virkja svo frumur ónæmiskerfisins sem valda þá bólgusvörun. Algengast er að bólgusvörun þessi eigi sér stað í augum og öndunarfærum þar sem öflugt ónæmiskerfi er til staðar og þau eru opin gagnvart umhverfinu.

Einkenni frjókornaofnæmis

Algengustu einkenni frjókornaofnæmis eru kláði og þroti, nefrennsli og stíflað í nef. Einkennin líkjast mjög kvefeinkennum og margir sem greinast með frjókornaofnæmi hafa “kvefast” á vorin og sumrin í mörg ár áður en þeir greinast. Í sumum tilvikum geta komið fram astmaeinkenni með hósta, andþyngslum og surgi fyrir brjósti. Sjaldgæfara er að frjókornaofnæmi valdi einkennum frá meltingafærum eða útbrotum.

Hvað er til ráða?

Þar sem frjókorn berast í lofti er ekki alveg hægt að forðast þau. Öll viljum við njóta sumarsins en þó er rétt að þeir sem eru með mikil ofnæmiseinkenni fari varlega og haldi sig inni við þegar “þeirra frjókorn” eru í hámarki. Einnig er rétt að þeir sem eru með ofnæmi fyrir grösum forðist að slá gras eða vera þar sem gras er slegið.

Til er mikið úrval af lyfjum sem hægt er að nota. Lyf geta unnið annaðhvort staðbundið eða almennt. Ef einkenni eru staðbundin er rétt að nota staðbundin lyf, augndropa ef einkenni eru eingöngu frá augum eða nefúða ef einkenni eru eingöngu frá nefi. Ef einkenni koma fram á fleiri stöðum eða ef almenn einkenni fylgja er rétt að nota ofnæmistöflur. Sum þessarra lyfja má fá án lyfseðla og hægt að fá góðar upplýsingar hjá lyfjafræðingum. Ef lyf án lyfseðils duga ekki má ræða við heimilislækninn um frekari lyfjagjöf. Ef einkenni eru mikil og standa í afmarkaðan tíma kemur til greina að gefa stera í töfluformi eða sem forðasprautu. Slík meðferð ætti að fara fram í samráði við ofnæmislækna. Ef einkenni eru mikil og þrálát, þrátt fyrir lyfjagjöf, kemur til greina afnæmingarmeðferð hjá ofnæmislækni. Þá er litlu magni ofnæmisvakans sprautað undir húð reglulega í langan tíma. Þannig má stundum venja ónæmiskerfið við ofnæmisvakann og minnka einkenni.

Með sumarkveðju frá Vinnuvernd ehf.

Prentvæn útgáfa (PDF)