14.02.2017

Hálsbólga og sýklalyfjanotkun

Sýklalyf eru lyf sem gera mikið gagn ef þau eru notuð á réttan hátt. Að taka sýklalyf að óþörfu hefur ýmsa vankanta, því auk þess að vinna á sýkingum þá valda lyfin einnig röskun á eðlilegri bakteríuflóru líkamans. Algengar aukaverkanir sýklalyfja eru útbrot, niðurgangur og sveppasýkingar. Röng eða of mikil notkun sýklalyfja eykur einnig líkur á að bakteríur þrói ónæmi gegn lyfjunum, sem veldur að erfiðara getur verið að meðhöndla ákveðna sjúkdóma. Sýklalyfjaónæmi er vaxandi vandamál í heiminum og er það á ábyrgð okkar allra að nota sýklalyf á skynsaman hátt. Um miðjan vetur eru veikndi í hámarki og er algengt að einstaklingar leiti læknis vegna særinda í hálsi, oft í þeirri von að sýklalyf geti hjálpað.

Særindi í hálsi eða hálsbólga, er sýking í hálskirtlum sem orsakast af veirum eða bakteríum. Algengasta smitleið er bein snerting og er því handþvottur mikilvæg vörn gegn hálssýkingum.  Venjulega líða 2-4 dagar frá smiti og þar til einkenni koma fram. Langflestar sýkingar í hálsi ganga yfir á nokkrum dögum án lyfjameðferðar, hvort sem orsakavaldur er veirur eða bakteríur. Hálssærindi samhliða dæmigerðum kvefeinkennum, svo sem nefrennsli, hósta og/eða hæsi orsakast langoftast af veirum. Í þeim tilfellum er gagnsemi sýklalyfjameðferðar engin og skiptir þar engu hvort hiti fylgir veikindunum.

Hálsbólga án kvefeinkanna orsakast í einhverjum tilfellum af bekteríum og þá einkum streptókokkum (týpa A). Hægt er að greina streptókkasýkingar frá öðrum bakteríusýkingum með einföldu hálsprófi sem framkvæmt er t.d. á heilsugæslu.Vægar streptókokkasýkingar þarf ekki að meðhöndla með sýklalyfjum en við alvarlegri einkenni getur sýklalyfjameðferð stytt veikindi um 2-3 daga. Dæmigerð einkenni streptókokkasýkinga eru:

  • Rauðir hálskirtlar, jafnvel hvít skán/skellur á hálskirtlum
  • Bólgnir, aumir eitlar á utanverðum hálsi
  • Hiti yfir 38,5°C
  • Enginn hósti

Nokkuð algengt er að fólk beri streptókka í hálsi án nokkurra einkenna en allt að 20% heilbrigðra einstaklinga eru einkennalausir berar. Ekki er þörf á að meðhöndla einkennlausa einstaklinga með sýklalyfjum þar sem hættan á að þeir smiti aðra er lítil. Hálspróf er því á sama hátt óþarft hjá einstaklingum sem eru einkennalausir, jafnvel þó einstaklingur í nánustu fjölskyldu hafi greinst með sýkingu.

 Með kveðju, Elva Rut Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur

Prentvæn útgáfa (PDF)