22.09.2017

Handþvottur - Veggmynd

Snerting er lang algengasta smitleið sýkla milli manna og því er handþvottur mikilvægasta sýkingavörnin.

Með höndunum snertum við allt í umhverfi okkar og með þeim komast sýklar inn í líkama okkar í gegnum munn og nef sem geta síðan valdið sýkingu. Með handþvotti verndar þú heilsu þína og annarra auk þess að draga úr líkum á sýkingu eins og inflúensu.

Við nánari skoðun kemur í ljós að almennt virðist fólk ekki þvo sér nægilega oft né nægilega vel um hendurnar. Við handþvottinn sjálfan verður því að muna að þvo öll svæði vel t.d. á milli fingranna, fingurgóma og neglur.

Mikilvægt er að skartgripir séu fjarlægðir af höndum áður en þær eru þvegnar. Hringar, úr og sápuleifar eru t.d. tilvalin sem gróðrastía fyrir sýkla og óhreinindi.

Hendurnar þarf ávallt að þvo með vatni og sápu og þurrka vel á eftir:

  • áður en hafist er handa við matreiðslu
  • fyrir og eftir máltíðir
  • eftir salernisferðir
  • eftir beina snertingu við sár, blóð og hvers kyns líkamsvessa, manns eigin eða annarra

Prentvæn útgáfa (pdf)