23.08.2017

Hjólað í vinnuna

Hjólreiðar er raunhæfur kostur til samgangna á Íslandi og á hverjum degi hjóla fjölmargir til vinnu. Fjöldi þeirra sem hjólar eykstalla jafna þegar snjóa leysir og sól hækkar á lofti. Talsverður fjöldi tekur svo hjólið fram þegar átaksverkefnið ,,Hjólað í vinnuna” hefst í upphafi maí ár hvert.

Hjólreiðar eru ekki hættuleg „íþrótt“, í raun er mikið hættulegra að hjóla ekki! En allur er varinn góður. Hvort sem hjólað er úr eða í vinnu eða í eigin frítíma er mikilvægt að huga að ýmsum þáttum sem snerta velferð allra sem hjóla.

HUGAÐU AÐ HÖFÐINU – NOTAÐU HJÁLM!

Við hvetjum börn til þess að nota hjálm enda hafa rannsóknir sýnt að hann dregur úr hættu á höfuðáverkum. Og hjálmar hjálpa ekki bara börnum heldur fólki á öllum aldri!

AÐLAGAÐU HJÓLIÐ AÐ ÞÉR

Er hnakkurinn of hár? Er stýrið of langt frá þér? Er hjólið of stórt eða of lítið? Mikilvægt er að huga að þessum þáttum til þess að þér líði vel á hjólinu, til að aflið sem þú beitir nýtist sem best og til að draga úr hættu á álagsmeiðslum.

GETUR ÞÚ STOPPAÐ ÞIG? – SKOÐAÐU BREMSUBÚNAÐINN!

Farðu vel yfir bremsubúnað hjólsins áður en þú leggur í‘ann. Ef þú getur ekki dregið úr hraða á skömmum tíma þá er ekki í lagi með bremsurnar.

MINNA LOFT MEIRA VIÐNÁM

Með réttan loftþrýsting í dekkjum rennur hjólið betur og aflið sem þú beitir við hjólreiðarnar nýtist betur. Sé loftþrýstingurinn of lítill eða of mikill getur það haft í för með sér aukna slysahættu.

VERTU SÝNILEG(UR)

Veldu fatnað og búnað sem gerir þig sýnilega(n) á hjólinu. Þetta á ekki síst við í skammdeginu.

VERTU VAKANDI...MEÐ AUGUN OPIN

Kantar, steinar, lausamöl og misfellur ýmiskonar geta torveldað för. Horfðu fram á veginn og fylgstu vel með því sem framundan er.

FYLGDU UMFERÐARLÖGUM

Sé hjólað í umferð er mikilvægt að fylgja umferðarlögum. Þú þarft að hafa góða stjórn á hjólinu, hafa skilning á því hvernig umferðin hegðar sér og hvernig reiðhjólið passar inn í hana. Samvinna akandi og hjólandi er lykilatriði - báðir aðilar þurfa að taka tillit!

HALTU ÞIG HÆGRA MEGIN

Haltu þig hægra megin þannig að þú fylgir sömu stefnu og önnur ökutæki. Þetta á einnig við sé hjólað á gangstígum.

SEM AKANDI TAKTU TILLIT TIL ÞEIRRA SEM HJÓLA

Flestir þeirra sem hjóla og hafa bílpróf eru einnig ökumenn. Reiðhjól er hluti af umferð og hér á landi er „hjólreiðarmenning“ í uppbyggingu. Verum öll virkir þátttakendur í því verkefni.