07.06.2016

Hreyfing eykur orku

Þegar við komum heim eftir vinnudaginn, örþreytt og jafnvel með einhverja stoðkerfisverki, þá finnst okkur kannski líklegast að við þurfum bara að hvíla okkur. Við leggjumst í sófann og tökum því rólega. Okkur líður sennilega aðeins betur á eftir en næsta dag er það sama sagan. Við erum þreytt eftir vinnuna og finnum til óþæginda í skrokknum og sagan endurtekur sig dag eftir dag. Hvíldin sem við fengum í sófanum er nefninlega ekki lausnin á vandanum.

Með reglubundinni hreyfingu eigum við möguleika á að komast út úr þessum vítahring. Segjum að við ákveðum að fara í hálftíma göngutúr eftir vinnu. Í fyrstu vikunni getur verið að við finnum ekki mikla breytingu. En eftir ótrúlega stuttan tíma förum við að finna mun. Við erum ekki jafn þreytt þegar við komum heim úr vinnunni og verkurinn í bakinu eða hálsinum er aðeins skárri. En hver er ástæðan?

Byrjum á að skoða hvað gerist í frumum líkamans þegar við stundum hreyfingu. Í öllum frumum eru orkugjafar sem kallast hvatberar. Þeir framleiða orku. Þegar við hreyfum okkur þá fjölgar þessum hvatberum til þess að mæta orkuþörfinni. Því fleiri hvatberar því meiri orka.

Hreyfing eykur blóðflæði til vefja líkamans og gerir hjarta og æðakerfið skilvirkara. Þegar hjarta og lungu vinna á skilvirkari hátt þá hefur þú meiri orku fyrir verkefnin í daglegu amstri og átt því líklega afgangs orku eftir vinnudaginn.

Við hreyfingu dregur úr magni streituhormóna og magn endorfina eða „vellíðunar“ hormóna eykst. Margir finna fyrir auknu sjálfstrausti og stolti þegar þeir fara að finna jákvæð áhrif hreyfingar.

Mikilvægt er að hver og einn finni sér hreyfingu sem hann hefur gaman af og taki fyrsta skrefið í átt að heilbriðgðara lífi sem allra fyrst. Góð áhrif á líkama og sál munu ekki láta á sér standa.

Með kveðju, Lilja Harðardóttir sjúkraþjálfari Vinnuverndar ehf.

Prentvæn útgáfa (pdf)