14.03.2017

Mikilvægi hreyfingar

Hreyfing gegnir lykilhlutverki fyrir heilsu og vellíðan alla ævi. Hún hefur jákvæð áhrif á öll líffærakerfi líkamans. Hún styrkir hjarta og æðakerfið og bætir andlega líðan, styrk og þol.

Við hreyfingu gerist fjölmargt í líkamanum. Blóðþrýstingurinn hækkar við erfiðið en lækkar í eðlilegt horf eftir æfinguna en áhrifin endast í margar klukkustundir á eftir.  Einnig hefur hreyfingin áhrif á blóðsykur, sem lækkar og helst lægri í nokkrar klukkustundir. Við endurtekna hreyfingu gengur líkamanum betur að stjórna sveiflum í blóðsykrinum og vöðvarnir taka betur upp sykurinn við aukið álag.  Einnig hækkar blóðfitan ekki jafn mikið eftir máltið þegar hreyfing er stunduð reglulega.  Á meðan hreyfingu stendur eykst magn hormóna í blóði, s.s. kortisóls, adrenalins og vaxtahormóns, sem gerist til að líkaminn geti virkjað nægan kraft.

Við reglulega hreyfingu eykst þolið  og þreyta minnkar. Með reglulegri ástundun, kemst líkaminn hægt og rólega í betra form og þá hægist frekar á púlsinum. Með áframhaldandi þjálfun breytist svo brennslan og vöðvarnir fara að brenna meiri fitu, sem sparar forðasykurinn. Eftir nokkurra mánaða þjálfun er líklegt að líkamsþyngd hafi minnkað ef ekki er borðað meira en áður.  Kviðfitan sem hefur myndast og eykur almennt hættuna á hjarta og æðasjúkdómum fer minnkandi við aukna hreyfingu og aukna brennslu. Við reglulega hreyfingu kemst líkaminn því í betra form, hámarksupptaka súrefnis eykst og hjartað dælir meira blóði um líkamann.

Beinin styrkjast ásamt brjóski og bandvef með aukinni hreyfingu. Magn streituhormóna í blóði eykst minna við endurtekna hreyfingu og nýjar æðar myndast í vöðvum, heila og hjarta, sem veldur því að blóðflæði eykst og líffærin starfa betur. Ónæmiskerfið styrkist og líkur á sjúkdómum eins og hjarta- og æðasjúkdómum og ýmsum tegundum af krabbameini og sykursýki minnka til muna. Starfsemi heilans eykst og myndun nýrra heilafrumna hefur aukist. Með hreyfingu eykst vellíðan ásamt því að einbeiting, greind og frumleiki eykst til muna.

Svefninn verður betri með aukinni hreyfingu, líðan batnar og athygli eykst og auðveldara verður að takast á streitu og daglegt líf.

Með kveðju, Jakobína Þráinsdóttir, hjúkrunarfræðingur.

Prentvæn útgáfa (PDF)