14.05.2017

Staðið við skrifborð

Hækkanleg rafmagnsskrifborð eru að verða tiltölulega algeng á vinnustöðum hérlendis. Slík borð hafa reynst vel þar sem auðvelt er að stilla borðið í þá hæð sem hentar best þegar setið er við borðið. En þau bjóða líka upp á þann möguleika að standa við skrifborðið.

Hversu lengi á að standa?

Það er mjög einstaklingsbundið hversu lengi fólk vill og getur staðið við skrifborðið. Á meðan sumir prófa að standa upp og vilja helst ekki setjast aftur þá finnst öðrum erfitt að standa og gefast því fljótt upp. Það þarf að þjálfa líkamann í því að standa og standa rétt. Það er nefninlega ekki betra að standa en sitja ef við stöndum ekki rétt. Við hækkum borðið þannig að það sé nokkurn veginn í olnbogahæð svo við getum hvílt framhandleggina þægilega á vinnuborðinu. Við þurfum að standa jafnt í báða fætur og passa að læsa ekki hnjám. Gott er að standa eins nálægt vinnuborðinu og við getum.

Munum eftir því að standa upp

Það er gott að koma sér upp einhverskonar rútínu, standa alltaf upp á ákveðnum tímum, setja áminningu í dagatalið eða skrifa það á lítinn miða sem er á augljósum stað á vinnuborðinu. Best er að byrja rólega og standa upp í smá stund í einu og þegar við þreytumst þá setjumst við niður. Ef staðið er upp reglulega mun úthaldið til að standa aukast. Markmiðið er ekki að standa allan daginn. Það er best fyrir líkamann að fá tilbreytingu og vera ekki alltaf í sömu stöðu. Að sitja allan daginn hefur margvísleg slæm áhrif á heilsu okkar en með því að standa og sitja til skiptis drögum við verulega úr öllum þeim áhættuþáttum sem fylgja því að sitja.

Ef ekki er hægt að standa

Fyrir þá sem ekki eru með hæðarstillanlegt vinnuborð er mikilvægt að sitja ekki lengur en í einn klukkutíma í einu. Þá er hægt að standa upp og gera léttar hléæfingar til þess að auka blóðflæði og með því draga úr neikvæðum áhrifum þess að sitja allan daginn.

Með kveðju, Lilja Harðardóttir sjúkraþjálfari Vinnuverndar ehf.

Prentvæn útgáfa (PDF)