11.08.2016

Vöðvabólga

Vöðvabólga er eitthvað sem margir kannast við af eigin raun. En hvað er vöðvabólga? Þetta fyrirbæri sem er kallað vöðvabólga er í raun ekki eiginleg bólga í vöðvum heldur aukin spenna.

Þessi aukna spenna veldur óþægindum meðal annars vegna þess að vöðvinn verður þreyttur, vöðvar eru ekki hannaðir til þess að vera í stöðugri spennu. Einnig veldur stöðug vöðvaspenna skertu blóðflæði til og frá vöðvunum og það getur ert taugar þar sem að þær fá ekki nauðsynleg næringarefni. Skert blóðflæði veldur ekki aðeins næringarskorti heldur safnast úrgangsefni fyrir í vöðvunum þar sem ekki er nægilegt flæði til að losa þau úr vöðvanum.

Ástæður þess að vöðvar eru í þessari auknu spennu í langan tíma eru misjafnar. Andlegt álag eða streita hefur þau áhrif að heilinn bregst við með því að undirbúa líkamann fyrir átök. Vöðvar eru settir í viðbragðsstöðu sem þýðir að þeir verða aðeins spenntir. Slæm líkamsstaða getur aukið líkur á vöðvabólgu og þá sérstaklega slæm líkamsstaða við vinnu. Einhæf störf þar sem sömu stöðu er haldið í langan tíma geta líka aukið líkur á vöðvabólgu þar sem að sömu vöðvahóparnir eru spenntir í langan tíma.

Hvað er til ráða?
Það fer eftir eðli vandans hver besta lausnin er. En almennt er talað um að það sé best að fá blóðið á hreyfingu. Þ.e. hreyfa okkur þannig að blóðflæðið komist vel af stað og þannig hjálpa til við að hreinsa vöðvana af úrgangsefnum og koma næringarefnum til þeirra. Mikilvægt er að skoða líkamsstöðu bæði í leik og starfi og gott getur verið að láta fagaðila taka út vinnuaðstöðu og fá leiðbeiningar um hvernig best er að bera sig að við vinnuna til þess að draga úr líkum á stoðkerfisverkjum og vöðvabólgu. Gott er að gera hléæfingar í vinnu, sérstaklega ef um fremur einhæfa vinnu er að ræða eins og t.d. skrifstofuvinnu eða færibandavinnu. Heitir eða kaldir bakstrar og nudd geta hjálpað til en duga sjaldnast einir og sér þar sem að ekki er verið að ráðast á orsök vandans.

Með kveðju, Lilja Harðardóttir sjúkraþjálfari Vinnuverndar ehf.

Prentvæn útgáfa (pdf)