​Fjölbreytt ráðgjöf fyrir vinnustaði

Vellíðan í vinnu


Sálfræðiteymi Vinnuverndar veitir stjórnendum vinnustaða ýmsa mannauðstengda ráðgjöf.  Sálfræðingar okkar eru sérhæfðir í erfiðum samskiptamálum, streitu og kulnun og veita ráðgjöf til stjórnenda og starfsfólks. 

Hér fyrir neðan er að skoða nokkur af þeim fjölmörgu verkefnum sem sálfræðingar okkar hafa unnið að í samvinnu við vinnustaði.


SENDA FYRIRSPURN   

Vinnustaðagreining 

á félagslegum og andlegum áhættuþáttum í vinnuumhverfi


Atvinnurekandi ber ábyrgð á því að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað skv. lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (46/1980). Sú áætlun er mikilvægur þáttur í vinnuverndarstarfi og er tilgangur að stuðla að vellíðan, bættri heilsu og öryggi starfsmanna.

Sálfræðingar Vinnuverndar hafa hlotið viðurkenningu sem sérfræðingar um gerð áætlunar um öryggi á heilbrigði á vinnustöðum með sérstaka áherslu á áhættuþætti tengda félagslegum og andlegum þáttum. Þessir þættir eru t.a.m um álag og kröfur í starfi, líðan starfsmanna, stjórnendahætti, samskipti á vinnustað og EKKO (einelti, kynferðislegri/kynbundinni áreitni, ofbeldi).

Nýttar eru tvennskonar aðferðir við framkvæmd greininga á starfsumhverfi sem hægt er að sníða að þörfum vinnustaða hverju sinni:

  • Rafrænar kannanir sem sendar eru út á starfsmannahópinn.
  • Einstaklingsviðtöl við starfsmenn þar sem spurt er nánar um þessa þætti í vinnuumhverfinu.





Ekko ráðgjöf og vöktun

Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi á vinnustað

 

Skammstöfunin EKKO stendur fyrir einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi og ber vinnustöðum að hafa aðgerðaráætlun sem tekur á EKKO-málum með skýrum hætti.

Stefna og viðbragðsáætlun gegn EKKO: Sálfræðiteymi Vinnuverndar býður fyrirtækjum aðstoð við gerð viðbragðsáætlana gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustað (EKKO). Samkvæmt 65. gr. laga nr. 46/1980 ber atvinnurekendum skylda til þess að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Því er mikilvægt að slík áætlun sé til, að hún sé uppfærð reglulega og að hún sé aðgengileg starfsfólki.

EKKO vöktun: Að upplifa neikvæða og/eða niðurlægjandi framkomu á vinnustað er flestum mjög þungbært og mörgum finnst erfitt að setja mörk í samskiptum eða láta vita af hegðuninni.

Vinnuvernd býður fyrirtækjum upp á þjónustu sem kallast EKKO vöktun og er í höndum sálfræðiteymisins. EKKO vöktun er sérstök tilkynningagátt þar sem starfsfólk getur viðrað upplifun sína af óæskilegri framkomu hjá óháðum og hlutlausum aðila. Sálfræðingur vaktar tilkynningagáttina og hefur samband við starfsmanninn og býður honum í viðtal. Í viðtalinu er hlustað á upplifun starfsmanns, farið yfir skilgreiningar á EKKO, veittur stuðningur og tekið samtal um mögulegar leiðir sem starfsmaður getur farið í kjölfarið út frá viðbragðsáætlun vinnustaðarins. Sálfræðingur tekur ekki ákvörðun fyrir starfsmann hvaða leið hann vilji fara með kvörtun sína. Mikilvægt er að starfsmaður geri það sjálfur og treysti sér til að gera það eftir samtal við sálfræðing.



Kulnun í starfi

 

Kulnun er alvarlegt ástand sem ógnar heilsu starfsmanna. Þó kulnun sé ekki algeng á Íslandi þá er mikilvægt að vinnustaðir tryggi forvarnir á vinnustað til að draga úr líkum þess að starfsmenn lendi í kulnun. Kulnun þróast yfir langan tíma og því eru mörg tækifæri fyrir vinnustaði til að sinna forvarnarstarfi og stuðla að heilbrigðri vinnustaðamenningu þar sem fólk þrífst í starfi. 


Sálfræðiteymi Vinnuverndar býður upp á ýmsa þjónustu á þessu sviði. Meðal annars:  

  • Fræðslu fyrir starfsmenn og ítarlegri fræðslu fyrir stjórnendur.
  • Einstaklingsviðtöl sem hafa þann tilgang að aðstoða starfsmann/stjórnanda að greina streituvalda, finna leiðir og efla bjargráð til að styrkja sig.
  • Rafrænar kannanir til að meta upplifun starfshóps á álagi og líðan í vinnu. 




Samskiptasáttmáli 

 

Góð og uppbyggileg samskipti á vinnustað er lykilþáttur í starfsánægju og vellíðan í vinnu. Ýmsar óformlegar venjur geta skapast  í samskiptum milli starfsfólks og geta ýmist haft jákvæð eða neikvæð áhrif á starfsanda. Neikvæð samskipti eru ein helsta ástæða fyrir vanlíðan og streitu starfsfólks á vinnustaðnum.

Vinnustaðir eru nú í ríkari mæli að koma sér upp samskiptasáttmála sem eru eins konar leiðarljós í samskiptum og framkomu starfsfólks vinnustaðar. Starfsfólkið sjálft kemur að gerð sáttmálans ásamt stjórnendum og er markmið með sáttmálanum að efla jákvæð og uppbyggileg samskipti á vinnustaðnum, auka traust milli starfsmanna og auka vellíðan.

Vinnuvernd býður upp á aðstoð við gerð samskiptasáttmála með starfsfólki og stjórnendum vinnustaðar. Mikilvægt er að sem flestir taki þátt og geti þannig haft áhrif á það hvernig línur eru dregnar í samskiptum í starfshópnum.  



Sálrænn stuðningur 

í kjölfar áfalla/erfiðleikar

 

Stuðningur við starfsfólk er mikilvægur þegar upp koma áföll eða erfiðar aðstæður á vinnustað. Slíkt getur vakið mjög ólík tilfinningaviðbrögð hjá starfsfólki sem erfitt getur verið að takast á við. 

Sálfræðiteymi Vinnuverndar hafa mikla reynslu í að veita starfsfólki sálrænan stuðning í slíkum aðstæðum. Markmiðið er að skapa öruggan vettvang fyrir starfsfólk að koma saman til að veita hvort öðru stuðning,  róa uppnám, fræða um eðlileg viðbrögð í óeðlilegum aðstæðum og veita stuðning og ráðgjöf. 

 Við erum einnig stjórnendum innan handar og veitum þeim ráðgjöf við slíkar aðstæður. 


Sáttarmiðlun 

 

Ágreiningur getur komið upp á vinnustöðum og er oft leystur á farsælan hátt innan vinnustaðar. Í einhverju tilvikum nær ágreiningur að stigmagnast og verða viðvarandi og erfiður. Það getur haft veruleg áhrif á líðan, starfsanda og starfsgleði á vinnustaðnum. Þá getur verið gagnlegt að fá utanaðkomandi aðstoð frá óháðum aðila til að leiða samtal milli málsaðila í þeim tilgangi að finna einhvers konar sátt.

Vinnuvernd býður vinnustöðum upp á sáttamiðlun og hafa sálfræðingarnir lokið námi í sáttamiðlun hjá Sáttamiðlaraskólanum.

Sáttamiðlun er aðferð þar sem óháður og hlutlaus ráðgjafi aðstoðar starfsmenn sem eiga í deilum að finna lausn á ágreiningi sínum eða erfiðum samskiptum. Sáttamiðlari leiðir samtal milli starfsmanna og aðstoðar þá í að finna sjálfir samkomulag um lausn á ágreiningi. Forsenda fyrir sáttamiðlun er að starfsmenn taki sjálfviljugir þátt og að samtalið fari fram í trúnaði.



Önnur mannauðsráðgjöf

 

Sálfræðiteymi Vinnuverndar veitir stjórnendum vinnustaða fjölbreytta mannauðstengda ráðgjöf. Oft á tíðum er sú ráðgjöf sérsniðin að þörfum vinnustaðarins, starfsfólks og stjórnenda. Ef þú ert með verkefni sem þig eða starfsfólki þínu vantar stuðning við endilega hafðu samband og við sjáum sjáum hvort við getum ekki aðstoðað þinn vinnustað. 

HAFA SAMBAND