Hver erum við?

Vinnuvernd er framsækið þjónustu- og ráðgjafafyrirtæki sem stuðlar að heilbrigði einstaklinga og vellíðan á vinnustað.   

Hjá Vinnuvernd starfar hópur sérfræðinga sem hafa sérhæft sig í þjónustu við atvinnulífið og einstaklinga.  

  • fagsvið lækna- og hjúkrunarfræðinga  
  • fagvið sálfræðinga  
  • fagsvið varðandi vinnuumhverfi og líkamsbeitingu 

Við vinnum að fjölbreyttum verkefnum sem öll hafa það sameiginlega markmið að veita faglega þjónustu til viðskiptavina okkar. Teljum við það mikinn styrk að geta nýtt sérfræðiþekkingu okkar mannauðs þverfaglega við þau fjölmörgu verkefni sem Vinnuvernd sinnir hverju sinni. Þjónustan getur verið í formi fyrirbyggjandi úrræða og fræðslu jafnt sem aðstoð við málefni sem mögulega eru komin í viðkvæman farveg.  

Byggt á reynslu þeirra vinnustaða sem nýtt hafa sér þjónustu Vinnuverndar, er það okkar sannfæring, að sú samvinna hafi skilað vinnustaðnum auknum ávinningi og einnig hafa skapast tækifæri á aukna samfélagslega ábyrgð. Með því að leggja ríkari áherslu á heilbrigði og vellíðan í menningu sinna vinnustaða stuðla stjórnendur að bættum hag starfsfólks bæði í leik og starfi. Mikil vitundarvakning hefur orðið í samfélaginu um þá virðissköpun sem á sér stað þegar fyrirtæki fjárfesta í heilsu starfsfólks. Fyrirtæki og stjórnendur eru meðvitaðari um mikilvægi þessara þátta og tengslum þeirra við árangur. 

Skipurit


 

Tilgangur

Tilgangur okkar er að stuðla að bættu heilbrigði einstaklinga og aukinni vellíðan á vinnustað. 

Gildi 

Fagmennska

Við leitumst við að vera fagleg í öllu þeim verkefnum sem við tökum okkur fyrir hendur. Við viðhöldum þekkingu okkar og færni og berum faglega, siðferðilega og lagalega ábyrgð á störfum okkar.

Traust

Starf okkar byggist á trausti og öryggi. Við tökum ábyrgð á verkefnum okkar og skipulagi og berum hag viðskiptavina ávallt fyrir brjósti. 

Samvinna

Við störfum í þverfaglegum teymum þar sem áhersla er lögð á samvinnu og jákvæð samskipti. Við sýnum viðskiptavinum og samstarfsfólki okkar ávallt virðingu. 

Framsækni

Við erum árangursdrifin og leitumst við að afla okkur nýjustu þekkingar hverju sinni. Við sýnum metnað og frumkvæði í okkar störfum. Við erum framsækin og eftirsóknarverður vinnustaður og viljum við laða að okkur hæft starfsfólk.

Saga Vinnuverndar

Vinnuvernd ehf. var stofnað í ágúst 2006 af Atla Einarssyni, Magnúsi Böðvarssyni, Þorvaldi Magnússyni sem allir eru sérfræðilæknar og Gáska ehf. Ári síðar bættist Helgi Guðbergsson, sérfræðilæknir inn í eigendahópinn sem hefur verið óbreyttur síðan.

Stofnendur félagsins höfðu allir með einhverjum hætti unnið að vinnuverndarstarfi. Gáski ehf. hafði rekið litla einingu sem kölluð var Gáski – vinnuvernd frá árinu 2000 og læknahópurinn sinnt trúnaðarlæknastörfum og annarri ráðgjöf til vinnustaða. Markmiðið var að veita vinnustöðum heildstæða þjónustu á sviði vinnuverndar.

Í byrjun var starfsemin, sem var smá í sniðum, staðsett í litlum kjallara í húsnæði Gáska í Bolholti 8. Móttaka lækna var hins vegar í Læknasetrinu í Mjódd. Á sama tíma hóf Vinnuvernd að bjóða uppá ferðamannabólusetningar undir merkjum Ferðaverndar í Læknasetrinu.

Það má segja að starfsemin hafi vaxið nokkuð hratt á árinum 2007-2008 en þá störfuðu hjá fyrirtækinu framkvæmdastjóri, þrír hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfari og skrifstofustjóri auk fjögurra lækna í verktöku hjá fyrirtækinu. Óhætt er að segja að hægt hafi verulega á vextinum í kjölfar fjármálahrunsins og var árið 2009 erfitt fyrir starfsemina eins og svo víða.

Vinnuvernd er eitt þeirra fyrirtækja sem var fyrst til þess að öðlast viðurkenningu Vinnueftirlitsins sem fullgildur þjónustuaðili á sviði öryggis- og heilbrigðis en allt frá stofnun hefur fyrirtækið uppfyllt öll skilyrði þeirrar viðurkenningar og gerir enn.

Árið 2012 réði fyrirtækið vinnusálfræðing til starfa. Áður höfðu nokkrir sálfræðingar aðstoðað fyrirtækið við fræðslu og ráðgjöf til viskiptavina í einstökum verkefnum m.a. í fjármálahruninu og við afleiðingar fjármálahrunsins. Á þessum tíma var eftirspurn vinnustaða eftir sálfræðiþjónustu afar lítil og áherslurnar í mjög litum mæli á sálfélagslega þætti. Eins og allir vita þá hafa áherslur vinnustaða sem betur fer gjörbreyst á síðustu árum og sálfræðiteymi Vinnuverndar nú ört stækkandi.

Heilbrigðisskoðanir flugfólks hófust hjá Vinnuvernd 2014. Atli Einarsson, læknir sótti tvö námskeið erlendis og öðlaðist í framhaldi réttindi sem fluglæknir. Í kjölfarið aflaði Þorvaldur Magnússon sér sömu réttinda. Árið 2021 var sú starfsemi Vinnuverndar sem snýr að heilbrigðisskoðunum flugfólks skilgreind sem Fluglæknasetur með staðfestingu frá flugöryggisstofnun Evrópu -  EASA.

Á 10 ára afmæli fyrirtækisins flutti það starfsemi sína í Holtasmára 1 í Kópavogi þar sem það hefur nú aðsetur og sameinaði starfsemina á einum stað. Það var mikil lyftistöng bæði fyrir starfsfólk Vinnuverndar en ekki síður viðskiptavini að sameina starfsemina á einum stað og má segja að frá þeim tíma hafi teymisvinna innan fyrirtækisins vaxið og dafnað.

Haustið 2022 var ákveðið að blása til sóknar. Til liðs við Vinnuvernd kom öflugt starfsfólk m.a. þær Ása Inga Þorsteinsdóttir og Harpa Þöll Gísladóttir sem leitt hafa stefnumótun félagsins í samvinnu við stjórn fyrirtækisins og starfsfólk. Mikið umbótarstarf hefur átt sér stað hjá fyrirtækinu sem leitt hefur af sér nýjar áherslur, aðrar og betur skilgreindar þjónustuleiðir svo fátt eitt sé nefnt. Þessi vinna er enn í fullum gangi og verður hér eftir.

Á síðustu misserum hefur starfsemi fyrirtækisins vaxið hratt og ekkert sem bendir til annars en svo muni vera áfram.

Í dag starfa fimm sálfræðingar hjá fyrirtækinu, tíu hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfi, sjúkraþjálfari, tveir móttökuritarar auk tíu lækna sem sinna heilbrigðisskoðunum og starfstengdri læknisþjónustu. Auk þess koma fjölmargir  verktakar að starfinu okkar.

Vinnuvernd hefur á að skipa einstöku starfsfólki sem hefur verið virkur þátttakandi í þróun fyrirtækisins allt frá upphafi og er enn lykillinn af því hve farsælt fyrirtækið hefur verið.